Berlín 2014: „Not seems to be working“

the_monuments_men_2013-1280x720Ef þú hefur heyrt eitthvað bagalegt um mynd George Clooneys, The Monuments Men, þá eru allar líkur á að það sé rétt. Ég sé ekki neina ástæðu til að þessi mynd sé með í keppninni um Gullbjörninn, nema auðvitað aðdráttarafl stjarnanna. Að myndinni sé hleypt inn virðist vera efnahagsleg ráðstöfun frekar en nokkuð annað. Og þá er það bara þannig, ekki kann ég að reka kvikmyndahátíð, sjálfsagt er þetta fyrir bestu.

Myndin er byggð á raunverulegum atburðum eins og það heitir. Með öðrum fór í raun hópur bandarískra listfræðinga til Evrópu í lok stríðsins til að bjarga listaverkum, ekki aðeins úr höndum nasista, sem samkvæmt kvikmyndinni ætluðu sér að tortíma öllum verkunum sem þeir höfðu stolið jafnóðum og þeir töpuðu stríðinu, heldur líka úr höndum Rússa sem ætluðu að taka verkin með sér til Rússlands, eða öllu heldur Sovétríkjanna, sem stríðsskaðabætur, frekar en skila þeim til réttmætra eigenda eins og Bandaríkjamenn vildu gera.

Ég vil byrja á að taka fram að ég fór ekki fordómafullur á myndina, eins og einhverjum þætti kannski tilefni til. Í fyrsta lagi er nautnin sem hafa má af bandarískum kvikmyndum, jafnvel einföldustu færibandamyndum, raunveruleg. Í öðru lagi hefur George Clooney farið langt fram úr því viðmiði í öðrum verkum, bæði sem leikari og leikstjóri. Hann hefur líka stundað einhvers konar pólitíska gagnrýni bæði innan og utan kvikmyndaverka, og þess vegna mætti vænta góðs af honum í þessu samhengi. Í þriðja lagi jók það jafnvel forvitni mína um verkið að ég hafði séð útundan mér neikvæða umfjöllun — hver veit, hugsaði ég, og féll þannig hinu megin fyrir borð í eigin fordóma og klisjur, nema hann hafi hér unnið einhvern sigur á sviði hins fínlega, gert eitthvað óvenjulegt sem væri hreint ekki allra að njóta. Í fjórða lagi skartar myndin Matt Damon, Bill Murray, John Goodman og Clooney sjálfum í hlutverki bandarísku listfræðinganna og Kate Blanchett í hlutverki fransks listfræðings, ásamt öðrum andlitum sem maður á að kannast við. Þetta eru góðir leikara. Það mætti tala um einvalalið. Það mætti gera eitthvað úr þessu.

En nei, því var ekki fyrir að fara. Myndin skartar Matt Damon, Bill Murray, John Goodman og öðrum andlitum sem ég kannaðist við. Sá minnst þekkti dó fyrstur, stjörnurnar lifðu af. Og ég veit ekki nákvæmlega hvernig ég á að lýsa því sem gerðist þar á milli. Clooney talaði stundum yfir myndina, í hlutverki listfræðingsins, um göfgi sína, sinna manna, og vonsku nasista. Hitler vildi eignast allt og eyðileggja allt, kemur fram. Bæði Þjóðverjar og Rússar þekkjast umsvifalaust á því, jafnvel þó maður muni ekki hvernig einkennisbúningar herjanna eru á litinn, hvað þeir arka stífir og illskulega um, á meðan bandarísku hetjurnar eru bara slakar á því. Þeir bandarísku sjást aldrei drepa nokkurn mann.

Það sem ég er að fara: myndin veltir sér ekki bara letilega upp úr hverri einustu ofureinföldun og áróðursklisju sem þrífst í frásögnum sigurvegaranna af stríðinu sínu — það getur næstum verið fyrirgefanlegt þegar myndin er nógu skemmtileg — heldur gerir hún það með aulalegri og dapurlegri sjálfsupphafningu. Það er eins og Clooney hafi séð South Park þáttinn sem var gerður þar sem hann bar ábyrgð á hrikalegasta stærilætisskýi sem lagst hafði yfir Bandaríkin og ákveðið að gefa bara aðeins í. Listaverkin sem sjást, listaverkin sem mennirnir eru að bjarga, sjást alltaf rétt nógu stutt og í nógu mikilli fjarlægð til að verða eintóm skreytilist. Þeim er engin athygli gefin. Það stöðvar Clooney ekki frá því að tala í löngu máli, djúpri röddu, um hvernig botninn myndi hrynja úr samfélögum okkar og sjálfum nútímanum ef nasistar héldu verkunum, hvað þá ef þeir tortímdu þeim. Talandi um nútímann: kannski gera framleiðendur og höfundar myndarinnar ráð fyrir að áhorfendur ættu erfiðara með að kyngja mikilvægi þess að bjarga nútímamyndlist en Michelangelo og Rembrandt – nöfn sem heyrðust mjög oft í myndinni. Í það minnsta bar ekki á því að það hefðu einkum verið þau verk sem nasistar lögðu sig fram um að granda eða halda fólki frá því að upplifa. Það bar raunar ekki á því að nokkur nútími hefði átt sér stað í listasögunni. Sem er líklega eins gott, því ekki sá hans stað í kvikmyndagerðinni.

En þú veist, ég er hálfpartinn að reyna að uppfylla einhvern ímyndaðan orðakvóta hérna, standa mig í vinnunni, í sjálfu sér tekur því einfaldlega ekki að segja margt um þessa mynd. Hún var ekki góð. Viðskiptalega ákvörðunin um að hafa hana með var hins vegar, ef marka má aðsóknina í stjörnurnar, alveg frábær. Hér eru hugsanlega fleiri blaðamenn en gestir á kvikmyndahátíðir í Reykjavík.

george clooney á berlinale 2014Ég læt fylgja mynd úr tröppunum á Hyatt hótelinu, þegar Clooney, Bill Murray, Kate Blanchett og allir hinir héldu blaðamannafund, í kjölfar sýningarinnar. Ég stend þarna á meðal þeirra blaðamanna sem fengu sér sígarettu eða fóru á klósettið eða keyptu sér kaffibolla milli myndar og fundar. Stór mistök. Salurinn var fullur, og forsalurinn var fullur, og kurteisislegu hótelverðirnir tóku að beita blaðamennina í tröppunum hótunum til að bægja þeim frá. „Ætlarðu að ýta mér? Ertu að ýta mér? Ég mæli ekki með því að þú reynir að ýta mér, Sir.“ Að blaðamannfundinum loknum komust allir upp tröppurnar, í ísskápinn, sóttu sér vatn og nú sitja einhverjir tugir okkar hér í tölvuverinu, sem er eins og tölvuver voru í menntaskólum fyrir fimmtán árum síðan, borð í röðum, hálfur meter á mann. Þetta er verksmiðja, þetta er kjúklingabú, þetta er fínt, ég ætla að drífa mig á aðra mynd.

Titilllinn er glens en ætli hann megi ekki bara standa – einhver blaðamaður hér í rýminu sagði þessi orð rétt í þessu, um tölvuna sem hann hafði sest við. Og var spurður á móti: Not seems to be working, Sir?

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR