Víkingar í kjölfar Everest hjá Baltasar

Baltasar Kormákur leikstjóri.
Baltasar Kormákur leikstjóri.

Baltasar Kormákur segir í spjalli við Variety að að hann vonist til að komast í hið langþráða víkingaverkefni sitt eftir að Everest klárast.

Hann lýsir myndinni sem persónudrifinni sögu sem jafnframt yrði full af æsilegum atburðum.

„Við munum sýna víkinga eins og þeir hafa aldrei verið sýndir áður,“ segir Baltasar. „Víkingar voru grimmir en þeir bjuggu líka yfir þekkingu. Þeir stunduðu viðskipti en hófu ránsferðir þegar verslun gekk ekki vel. Þessvegna áttu þeir svona góð skip.“

Myndin verður tekin upp á Íslandi en á ensku og með alþjóðlegum leikarahópi, evrópskum og norrænum. Aðalleikarinn verður írskur.

Baltasar hóf að skrifa handrit að víkingamynd í upphafi síðasta áratugs en lagði verkefnið til hliðar vegna þess að hann sái ekki fram á að geta þá útvegað nauðsynlegt fjármagn fyrir svo metnaðarfullt verkefni.

Hann segist áætla að kostnaður verði milli 60-100 milljónir dollara, eða milli 7-12 milljarða íslenskra króna. Framleiðsla verður í höndum bandarískra aðila sem brátt verði tilkynnt um en fyrirtæki Baltasars, Rvk. Studios, verður meðframleiðandi.

Sjá nánar hér: Vikings’ to Be Baltasar Kormakur’s Next Movie After ‘Everest’ | Variety.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR