Viðhorf | Ekkert kvenfólk með í þessari ferð sko!

"Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?" spurðu Gærurnar í Með allt á hreinu. Svarið við þessari heimspekilegu vangaveltu er enn þarna úti.
„Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?“ spurðu Gærurnar í Með allt á hreinu. Svarið við þessari heimspekilegu vangaveltu er enn þarna úti.

„Það verður ekkert kvenfólk með í þessari ferð sko,“ er Valgeir Guðjónsson látin segja í byrjun Með allt á hreinu, „það verður engin helvítis rúta, það verður langferðabíll.“

Setningin er ein af tuttugu sem valnefnd á vegum Eddunnar, skipuð til jafns af báðum kynjum að sögn, valdi sem fleygustu ummæli íslenskrar kvikmyndasögu fyrir 2000. Almenningur getur síðan kosið um flottustu setninguna.

Hið skringilega er að aðeins ein þessara völdu setninga er mælt af konu. Vissulega má segja að karlar hafi verið meira áberandi í íslenskum kvikmyndum framan af, þó vonandi sé það eitthvað að lagast. En það ætti engu að síður að vera vandalaust að finna fleiri fleyg ummæli úr kvenmannsbarka – t.d. í fyrrnefndri kvikmynd, þar sem ein aðalpersónan spyr: „Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?“

Valið hefur vakið nokkra athygli og umfjöllun í fjölmiðlum. Kannski ekki síst vegna þess að Brynhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Edduverðlaunanna, vakti sérstaka athygli sjálf á þessu þegar tilnefningar voru kynntar í gær. „Við fórum ekki í að setja kynjakvóta í þetta val en eftir á að hyggja hefðum við bara átt að gera það. Konur eiga undir högg að sækja í kvikmyndum og við þurfum alltaf að vera á tánum,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið/Vísi.

Þetta minnir á svipaða uppákomu í fyrra þegar valnefnd Eddunnar komst að þeirri niðurstöðu að aðeins bæri að tilnefna þrjár konur fyrir leik sinn í kvikmyndum en fimm karla. Niðurstaðan varð umdeild og fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um hið skrýtna val.

Kannski er þetta málið. Kannski var hugmyndin að framleiða fjölmiðlaefni og deilur. Þetta vekur jú athygli á þörfum málstað, skörðum hlut kvenna í kvikmyndum. Margir fá tækifæri til að býsnast og láta vanþóknun sína í ljós. Eddan fær góða kynningu. Almenningur fær að fussa heima hjá sér – með eða á móti. Allir eru glaðir hér í besta landi allra landa.

Svo er auðvitað hinn möguleikinn fyrir hendi. Að valnefndinni hafi bara ekki tekist að finna fleiri flottar setningar með konum. Að karlar séu bara miklu flottari svona almennt í íslenskum kvikmyndum. Og svo auðvitað að leikarar séu stundum miklu betri en leikkonur í þeim og því beri að sjálfsögðu að hampa.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR