Magnús Geir Þórðarson ráðinn útvarpsstjóri

Magnús Geir Þórðarson er næsti útvarpsstjóri. Á myndinni er hann að taka við Íslensku þekkingarverðlaununum 2010.
Magnús Geir Þórðarson er næsti útvarpsstjóri. Á myndinni er hann að taka við Íslensku þekkingarverðlaununum 2010.

Það kemur væntanlega fæstum á óvart að Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhússins hefur verið ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Magnús Geir hefur átt farsælan feril sem stjórnandi Leikfélags Akureyrar frá 2004 og stjórnandi Borgarleikhússins frá 2008. Á tíma sínum á báðum stöðum náði hann afar góðum árangri og því ljóst að margir horfa vonaraugum til hans í nýju starfi.

Magnús Geir hefur átt sæti í stjórn RÚV ohf. um nokkurt skeið og látið þar til sín taka. Klapptré er kunnugt um að hann hafi meðal annars átt drjúgan þátt í þessu plaggi frá nóvember 2012 þar sem stefna RÚV í ýmsum málum er lúta að dagskrá og vinnslu hennar ásamt ýmsum öðrum þáttum var lögð fram í fyrsta sinn með frekar ítarlega skilgreindum hætti.

Í tilkynningu sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur sent frá sér, er ráðningarferlinu gerð nokkuð ítarleg skil. Þar segir meðal annars:

„Stjórn Ríkisútvarpsins hefur ákveðið að ráða Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóra Borgarleikhússins sem útvarpsstjóra. Ákvörðunin um að bjóða honum stöðuna var tekin samhljóða á fundi stjórnar sunnudaginn 26. janúar.

Magnús lauk MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og árið 2003 lauk hann meistaranámi í leikhúsfræði frá University of Wales. Hann var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá árinu 2004 þar til hann tók við stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins árið 2008.

Staða útvarpsstjóra var auglýst í desember í kjölfar þess að Páll Magnússon lét af störfum. Alls bárust 39 umsóknir um stöðuna.

Stjórn Ríkisútvarpsins lagði áherslu á faglegt og vandað ráðningarferli og var ráðgjöfum hjá Capacent falin umsjón með ferlinu. Að liðnum umsóknarfresti fóru ráðgjafar yfir framlögð gögn umsækjenda og greindu með tilliti til þeirra hæfniskrafna sem fram voru settar í auglýsingunni um starfið.

Í auglýsingu voru eftirtaldar hæfniskröfur tilgreindar:

·     Háskólamenntun sem nýtist í starfi
·     Leiðtogahæfileikar
·     Stjórnunar- og rekstrarreynsla
·     Reynsla af stefnumótun og innleiðingu stefnu

Að fenginni tillögu ráðgjafa voru þeir ellefu umsækjendur sem best þóttu uppfylla hæfniskröfur um reynslu af stjórnun, rekstri og stefnumótunarvinnu, samkvæmt framlögðum gögnum,  boðaðir í viðtal.  Í framhaldi þess þótti ljóst að sex umsækjendur þóttu best uppfylla hæfniskröfur og voru þeir kallaðir til frekari viðtala við fulltrúa stjórnar Ríkisútvarpsins. Viðtölin sátu Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður, Magnús Stefánsson, varaformaður og  Björg Eva Erlendsdóttir, stjórnarmaður ásamt ráðgjafa.

Það var sameiginlegt mat allra sem sátu viðtölin að boða skyldi fjóra umsækjendur í áframhaldandi viðtal til að kynna hugmyndir sínar um framtíðarsýn og hlutverk Ríkisútvarpsins fyrir allri stjórn Ríkisútvarpsins. Þau viðtöl fóru fram 26. janúar og var í kjölfar þeirra ákveðið samhljóða á stjórnarfundi að ráða Magnús Geir Þórðarson. Var sérstaklega litið til margra ára farsællrar reynslu hans af stjórnun og rekstri og þeim athyglisverða árangri sem hann hefur náð á sínum ferli, bæði sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og síðastliðin ár sem leikhússtjóri Borgarleikhússins.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR