Metfjöldi innsendinga í Edduna

Frá afhendingu 14. Edduverðlaunanna í Hörpu í febrúar 2013.
Frá afhendingu 14. Edduverðlaunanna í Hörpu í febrúar 2013.

Aldrei hafa fleiri kvikmynda- og sjónvarpsverk verið send inn í Edduna, íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunin en í ár. Framleiðendur sendu inn alls 108 verk en innsendingafrestur rann út á miðnætti á mánudag. Þá voru nöfn 288 einstaklinga sem unnu við öll þessi kvikmynda- og sjónvarpsverk send inn í fagverðlaun Eddunnar. Í fyrra voru 102 verk send inn og nafn 151 einstaklings.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni.

Af innsendum verkum eru sjónvarpsverk alls 76 talsins og hafa aldrei verið fleiri en í fyrra voru þau 64. Af innsendum sjónvarpsverkum eru sex leikin verk fyrir sjónvarp, 21 frétta- eða viðtalsþáttur, 21 skemmtiþáttur og 28 menningar- og lífsstílsþættir.

Alls voru 7 kvikmyndir sendar inn í Edduna í ár sem er sami fjöldi og í fyrra, 10 stuttmyndir og 12 heimildamyndir samanborið við 8 stuttmyndir og 17 heimildamyndir í fyrra. Aðeins fimm verk falla í flokkinn barna- og unglingaefni í ár sem er fækkun úr átta verkum í fyrra.

Fjórar forvalsnefndir taka nú til starfa við að horfa á allar innsendingarnar og velja þau verk sem eru tilnefnd í öllum 23 verðlaunaflokkum Eddunnar. Reglurnar kveða á um að ef innsendingar í ákveðnum flokki eru fleiri en tíu þá eru tilnefnd verk fimm en ef innsendingarnar eru tíu eða færri þá eru þrjú verk tilnefnd. Tilkynnt verður um tilnefningar Eddunverðlaunanna 30. janúar og í kjölfarið hefst kosning Akademíumeðlima á milli tilnefndra verka.

Úrslit kosningarinnar verða svo tilkynnt á Edduhátíðinni þegar rjómi íslenska kvikmyndageirans fær hina eftirsóttu Eddustyttu. Eddan 2014 er að þessu sinni haldin laugardaginn 22. febrúar í Silfurbergi í Hörpu og er sýnd beint og í opinni dagskrá á Stöð 2.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR