„Dead Snow II“ á Sundance

Zombí nasistar gera það gott.
Zombí nasistar gera það gott.

Zombí-hrollvekjan Dead Snow II: Red or Dead, sem tekin var upp að mestu hér á landi í sumar, verður frumsýnd á Sundance hátíðinni í Bandaríkjunum sem haldin er dagana 16.-26. janúar næstkomandi.

Dead Snow II er meðframleiðsluverkefni Sagafilm og Tappeluft Pictures í Noregi. Tökur stóðu yfir í 40 daga hér á landi og fóru meðal annars fram á Reykjanesi og Eyrarbakka. Um eitt hundrað íslenskir kvikmyndagerðarmenn unnu við gerð myndarinnar og er þetta eitt stærsta verkefni Sagafilm í 36 ára sögu félagsins.

,,Það er mikil viðurkenning og heiður í því að myndin sé frumsýnd á jafn mikilvægum vettvangi, en Sundance hátíðin er ein af fimm stærstu kvikmyndahátíðum í heiminum”, segir Ragnar Agnarsson annar meðframleiðanda myndarinnar. Telur hann hann þetta jafnframt staðfestingu á því að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðsla eigi fullt erindi á alþjóðamarkað.

Ragnar tekur við forstjórastarfi Sagafilm þann 1. janúar þegar fyrirtækið opnar skrifstofu sína í Svíþjóð, en Kjartan Þór Þórðarson fráfarandi forstjóri og hinn meðframleiðandi myndarinnar, mun stýra nýja félaginu sem ber nafnið Sagafilm Nordic.

,,Það eru einmitt verkefni eins og Dead Snow II sem ýta undir sífellt vaxandi áhuga á íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð og hjálpaði þetta verkefni okkur að taka ákvörðun um að sækja í auknum mæli á erlenda markaði, með opnun skrifstofu í Stokkhólmi”, bætir Kjartan við.

Dead Snow II er framhald af myndinni Dead Snow sem kom út árið 2009. Leikstjóri myndarinnar er Tommy Wirkola (Hansel & Gretel: Witch Hunters). Myndin verður frumsýnd hér á landi í vor.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR