Tveir dagar í Tokyo

Benedikt Erlingsson tekur á móti leikstjóraverðlaununum í Tokyo fyrr í dag.
Benedikt Erlingsson tekur á móti leikstjóraverðlaununum í Tokyo í október s.l.

Benedikt Erlingsson leikstjóri segir ferðasögu sína frá Tokyo en þar hlaut hann leikstjórnarverðlaunin á dögunum fyrir mynd sína Hross í oss.

[divider scroll_text=“EFTIR BENEDIKT ERLINGSSON„]

 

Þetta lítur ekki vel út.

Það rignir  í Tókýó.

Úrhelli heitir þetta á okkar eyju hinumegin á hnettinum.

Hér heitir þetta eitthvað annað . Þetta er samt sama vatnið.

Yusu brosir blíð til okkar og biður okkur á fylga sér. Hún heldur á stóru spjaldi og á því stendur: “Mr. Erlingsson.”

Alltíeinu erum við komnir undir skyggni að bíða eftir rútu. Það hnussar í Gamla Silfurefnum: “Hér ætti að vera limma! Erum við ekki með mynd í aðalkeppninni? Hingað hef ég komið tuttugu sinnum með mínar myndir og það hefur alltaf verið limma.”

Mr. Fridriksson er ekki ánægður.

Ég tek  heilshugar undir þetta og sveia hneykslaður. Ég er heldur ekki öðru  vanur frá minni stuttu reynslu í kvikmyndagerð.  Á Spáni voru bara limmur fram og til baka. Limma er lámark fyrir kvikmyndagerðarmann.

Þetta byrjar ekki vel.

Rigning og  klukkutíma rútuferð framundan inní gráa Tókýóborg.

Hótel  Okura er appelsínugult að innan…einhvernveginn.  Japanskur Art Deco stil frá 8. Áratugnum. Þetta var hótel Bítlanna og sporgöngumanna þeirra.  Ég lít í kringum mig. Hér hefur ekkert breyst síðan maðurinn hennar Yoku hékk hér í lobbýinu. Og hér angar allt af íslenskri listasögu. Þetta er líka  hótel Bjarkar og Sigurrósar , Aminu, Ragnars Kjartanssonar og allra þessara heimsfrægu landa minna. Ég er á íslendingaslóðum í Tókýó. Friðrik er hér hagvanur.

Nú fer landið aftur að smárísa.

Fæ blissi hugmynd að bíómynd  um starfsfólkið á Hótel Okura. Rómantísk gamanmynd um sorgir og gleði pikkalóa og herbergisþerna. Gestirnir eins og nautgripir leiddir í gegn hver öðrum meira merkilegri með sig en hinn.

Það er aðallega bakgrunnurinn og lýsingin sem kveikir í mér. Þori ekki að minnast á þetta við framleiðandann. Yrði alltof dýrt og þó…?  Japönsk samframleiðsla og hægt að fá stjörnur í stutt skemmtileg hlutverk að leika sjálfan sig.  En svo fatta ég að þetta er bara Næturvaktin á japönsku hóteli og sleppi þessu frá mér. Fæ bara gamlar hugmyndir nú orðið.  Ætli ég sé ekki á síðustu metrunum.

Þetta lítur ekki vel út.

Fyrsta partýið er frekar misheppnað og aftur erum við niðurlægðir í transportmálum .

Verðum að gera okkur að góðu að okkur sé fylgt í neðanjarðarlestina. Reyndar er gott að fá  barnapíur til að fylga sér inní japanska metróinn.

Þær eru tvær. Nítíu og eitthvað árgangur.  Hafa logið því að vinnuveitandanum að þær tali ensku. Næ þó að mæma mig fram til þess að þær séu í alþjóðafræðum með áherslu á kóreönsku. Þær brosa mikið og segja Yes Yes en skilja samt ekki neitt.

Nú er það svart.

Svo  er komið að fyrstu sýningunni.

Ég panikera og krefst þess að fá að tala við sýningarmanninn.  Vil fullvissa mig um að hljóðið verði rétt stillt. Það verður uppi fótur og fit og mér verður ljóst að þetta riðlar öllu skipulagi. Mér sýnist barnapían mín vera að brotna saman. Og tveir öryggisverðir með apparat í eyra eru byrjaðir að tala út í loftið. Samt vildi ég bara fá að tala við sýningarmanninn.

Þetta á ekki að fara vel.

[quote align=“left“ color=“#999999″]Salurinn er stappaður og myndin rennur af stað.  Hljóðið er fullkomið. Aldrei séð þessa mynd á stærra tjaldi…en… það heyrist ekkert í áhorfendum. Þeir eru ekki að fatta þetta. Viðbrögðin eru kaldari en á Spáni  en…  jú þarna kom það! Ég lít í kringum mig . Opinmynnt andlit. Algjör hlustun.[/quote] Gefst upp og læt fylgja mér inní sal en þá birtist lausnin . Yusu er mætt með talstöð og sest við hlið mér inn i bíósalnum og biður mig um að gefa sér merki ef hljóðið er ekki rétt. Hún sé í sambandi við sýningarmanninn. Ég klökkna. Þetta er rétta afstaðan. Hér er greinilega einlægur vilji til að gera vel.

Japanir eru fullkomnir.

Salurinn er stappaður og myndin rennur af stað.  Hljóðið er fullkomið. Aldrei séð þessa mynd á stærra tjaldi…en… það heyrist ekkert í áhorfendum. Þeir eru ekki að fatta þetta. Viðbrögðin eru kaldari en á Spáni  en…  jú þarna kom það! Ég lít í kringum mig . Opinmynnt andlit. Algjör hlustun.

Eins og var búið að segja við okkur þá finnst fólki hér það vera sjá eitthvað sem það hefur aldrei séð áður.

Nú hlær það! Nú tekur það andköf! Já við erum að tala saman! Ég er að tala japönsku.

Svo byrja ég að hlusta á það sem ég vildi laga. Man eftir gömlu klippi sem ég sakna en… samt þetta er betra! Hugsa um hvað leikararnir mínir eru fallegt fólk og hvað þau gera þetta vel. Hugsa um Besta standandi í stafni eins og Haraldur harðráði. Æ! Afhverju er hann ekki hér. Hugsa til Davíðs Þórs tónskáldsins. Allt það sem hann gaf þessari mynd með tónlistinni. Og þá fæ ég samviskubit. Verð að tala meira um hann í þakkaræðum. Og  í  spurt og svarað. Þá man ég eftir hinum Dabbanum , Davíð Alexander sem sat með mér i 7 mánuði yfir klippinu og bað mig um að hlusta á mína innri innpúlsa eins og hann væri einhver Yoda. Man eftir angistinni á síðustu metrunum með Palla og  Friðriki Sturlu og hvernig þeir drógu þetta allt saman að landi og mig með. Ég sogast lengra og lengra inn í minningarnar,  Horfi á Hvítársíðuna og hugsa til Torfa í Hvammi og Páls á Húsafelli. Óla Flosa alltaf að kíkja í kameru. Og nú finn ég að ég byrja að hugsa um alla hestamennina Benna Lingdal, Hermann  og hana Söndru, Sindra, Guðna, Hálfdán, Örnu Lindu Heiðu og Gitte Gammelgaard og nöfn og andlit fjúga af stað. Allt þetta fólk sem gerði þessa mynd með mér og ætti að vera hér.

Þá er það búið.

Klapp og hneigingar og spurt og svarað.  Út í myrkum salnum fær einhver míkrafón í hönd og talar japönsku. Túlkurinn þýðir fyrir mig.  Fyrst ástarjátningar og svo spurningar og hver af öðrum betri.

Hvernig var þetta hægt? Hversvegna skaut hann merina?  Drap  hann hest í alvöru? Ef ég kem til Íslands er þetta landslagið sem ég mun sjá? Hvernig var þetta hægt? Er maður í dýrinu ? Er dýr í manninum?  Stundum get ég ekki svarað.

Sá gamli grái situr við hlið mér og glottir.

Svo er það myndataka á palli.

Þetta eigum við eftir að endurtaka nokkrum sinnum.

Eg lít útundan mér á Mr. Fridriksson.

Það glampar á silfurrefinn og hvít flössin hrökkva af feldinum eins og vatn af gæs. Hann brosir út í annað…

Það er aðeins farið að rætast úr þessu.

Benedikt Erlingsson
Benedikt Erlingsson
Benedikt Erlingsson er kvikmyndaleikstjóri, handritshöfundur og leikhúsmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR