Gagnrýni | Málmhaus

málmhaus-eldur
„Rokkið sker á þögnina og líkist einskonar innrás í friðsælt og hæggengt sveitalíf á sama tíma og það sýnir á mjög skýran hátt hve knýjandi og yfirþyrmandi harmur Heru er.“
[column col=“1/2″][message_box title=“Smárabíó/Háskólabíó | Málmhaus“ color=“blue“] [usr 4] Leikstjóri: Ragnar Bragason
Handrit: Ragnar Bragason
Aðalhlutverk: Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir
Lengd: 97 mín.
Ísland, 2013
[/message_box][/column]Kvikmyndin Málmhaus, í leikstjórn Ragnars Bragasonar, segir frá sveitastúlkunni Heru sem tólf ára gömul verður vitni að sviplegum dauða Baldurs bróður síns. Áfallið verður henni þungbært og tekst Hera á við sorgina með því að helga sig þungarokki, eftirlætistónlist bróður síns. Hún myndar sterk tengsl við tónlistina, og spilar á gítar og semur lög. Þegar Hera er um tvítugt hefur þó lítil þróun orðið á lífi hennar og henni gengur illa að fóta sig. Samskipti við aðra eru mjög slæm og hún lendir stöðugt upp á kant við fólk vegna andfélagslegrar og ógnandi hegðunar. Hún endist ekki í vinnu, hefur flosnað upp úr skóla og mistekst ítrekað að fara að heiman. Að auki er útlit hennar mjög í stíl við þungarokksáhugann og á skjön við æskuvinina og sveitaumhverfið á árunum í kringum 1990, þegar myndin gerist. Enda virðist afgerandi útlit hennar að einhverju leyti vera táknrænn gjörningur af hennar hálfu til að merkja sig bróður sínum og dauða hans.

Málmhaus fjallar fyrst og fremst um sorg og sorgarferli, og tekur sérstaklega til umfjöllunar þá félagslegu einangrun sem getur fylgt miklum harmi. Úrvinnsla Heru á dauðsfalli Baldurs í gegnum táknmyndir þungarokksins er þungamiðja frásagnarinnar en einnig er dregin upp áhrifarík mynd af því úrræðaleysi sem getur skapast innan fjölskyldna þegar sorgin ber óvænt að dyrum. Framsetning þessara flóknu tilfinninga má finna víða í sviðsetningunni. Sem dæmi má nefna nokkur atriði sem sýna Heru eina á ferli, hvort sem hún er gangandi á berangri eða spilandi á gítarinn sinn í stórri skemmu – einsemd hennar er undirstrikuð með því að staðsetja hana í stóru rými.

Einnig er mikil áhersla á þögn í myndinni, einkum framan af. Klukkusláttur, útvarpsfréttir og hægur taktur sveitalífsins rímar vel við sambandsleysið og einangrunina innan fjölskyldunnar. Þessi hægi taktur dregur einnig fram hve skammt á veg fjölskyldan er komin í sorgarferlinu – þrátt fyrir að mörg ár hafi liðið frá dauðsfalli Baldurs þegar meginþættir frásagnarinnar eiga sér stað. Þögnin sem hefur yfirtekið fjölskyldulíf Heru er svo þrúgandi að hávært þungarokkið skapar mjög truflandi en engu að síður áhugavert mótvægi við hana. Rokkið sker á þögnina og líkist einskonar innrás í friðsælt og hæggengt sveitalíf á sama tíma og það sýnir á mjög skýran hátt hve knýjandi og yfirþyrmandi harmur Heru er. Hún fær útrás í gegnum tónlistina, og þá menningu sem henni fylgir, og notar hana sem einskonar leiðarvísir að andmælum sínum á sama tíma og hún viðheldur tengslunum við Baldur og dauða hans í gegnum hana.

[quote align=“right“ color=“#999999″]“Helsti styrkur myndarinnar felst í því hvernig unnið er úr þeim flóknu tilfinningum sem hún fjallar um, og hve vel þeim tilfinningum er komið til skila – þá ekki síst af aðalleikkonu myndarinnar.“[/quote] Í myndinni er velt vöngum yfir mögulegum sáttum þessara mótsagnakenndu þátta og hvort þá sé hægt sé að sætta yfirleitt. Sú vinna er mjög vel heppnuð en helsti styrkur myndarinnar felst í því hvernig unnið er úr þeim flóknu tilfinningum sem hún fjallar um, og hve vel þeim tilfinningum er komið til skila – þá ekki síst af aðalleikkonu myndarinnar. Handritið kemur oft skemmtilega á óvart, sérstaklega þegar líður á myndina, og áhugavert að sjá hvernig unnið er með fastmótaðar hefðir þungarokksins og undirgreina þess. Að mínu mati felur vinnan með þessa þætti tónlistarstefnunnar í sér marga af hápunktum myndarinnar, svo ekki sé minnst á áhugavert val á lögum og flytjendum.

Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir leikur Heru og er sjálfsörugg í mjög krefjandi hlutverki. Hún er sannfærandi þungarokkari og kemur sérlega vel til skila því viðamikla tilfinningarófi sem býr innra með Heru. Styrkur Þorbjargar kemur einna best í ljós þegar Hera reynir að brjótast út úr fjötrum sorgarinnar og tilfinningar hennar taka á sig nýjar og óvæntar myndir. Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðsdóttir koma hófstilltri sorg og ráðaleysi foreldra Heru vel til skila. Að auki er vert að nefna Hannes Óla Ágústsson sem er bráðfyndinn í litlu hlutverki brjóstumkennanlegs æskuvinar Heru úr sveitinni.

Helga Þórey Jónsdóttir
Helga Þórey Jónsdóttir
Helga Þórey Jónsdóttir hefur nýlokið meistaranámi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands með kvikmyndafræði sem sérsvið. Helga starfaði við fjölmiðla um árabil og var m.a. tónlistargagnrýnandi á Morgunblaðinu og stjórnaði útsendingu útvarpsfrétta á RÚV. Síðustu ár hefur Helga snúið sér í auknum mæli að fræðistörfum og hyggur á frekara nám í kvikmynda- og menningarfræði. Helga í ritstjórn vefritsins Knúz.is.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR