RÚV: Páll segir hagræðingarkröfu 7%

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri.

Páll Magnússon útvarpsstjóri hefur sent frá sér skeyti þar sem fram kemur að fjárlagafrumvarpið rýri afkomu RÚV á næsta ári um rúmlega 260 milljónir króna og að raunveruleg hagræðingarkrafa sé því um 7%. Þessu verði að mæta og verða áætlanir út frá nýrri stöðu lagðar fram um næstu mánaðamót.

Skeyti hans fer hér á eftir í heild:

Sælt veri fólkið!

Nú hefur fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár litið dagsins ljós og niðurstaðan fyrir Ríkisútvarpið er í stuttu máli þessi:

Þær greinar nýrra laga um RÚV sem skerða auglýsingatekjur og auka rekstrarkostnað eru látnar halda sér, en tekjuauki sem átti að koma þar á móti er ekki látinn taka gildi nema að litlu leyti. Þannig ætlar ríkið áfram að taka um 400 milljónir króna af innheimtu útvarpsgjaldi á næsta ári og nota í aðrar þarfir ríkissjóðs. Fjárlagafrumvarpið og ný lög um Ríkisútvarpið rýra afkomu RÚV á næsta ári um samtals rúmlega 260 milljónir króna sem þarf að mæta með niðurskurði útgjalda. Raunveruleg hagræðingarkrafa til RÚV er því um 7%.

Við þessu verðum við að bregðast – sem og öðrum þáttum sem horfa til hins verra í rekstri RÚV, ekki síst samdrætti í auglýsingasölu.

Verið er að vinna hugmyndir og áætlanir svo þetta megi ná fram að ganga og verða þær kynntar svo fljótt sem verða má. Þess er þó tæpast að vænta fyrr en eftir næstu mánaðamót.

Bestu kveðjur,

Páll Magnússon

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR