Kvikmyndasjóður skorinn niður um 39%

kmí-logoFramlög til kvikmyndasjóðs Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verða skorin niður um 39% skv. fjárlagafrumvarpi 2014 og gert ráð fyrir að þau nemi 624,7 milljónum króna. Nemur niðurskurðurinn alls 445 milljónum króna. Að auki er gert ráð fyrir 120,9 milljóna framlagi til reksturs. Alls verður heildarframlagið því 745,6 milljónir króna á næsta ári.

Í kvikmyndasjóðnum eru þau framlög sem fara til fjárfestingar í einstökum kvikmyndaverkefnum. Af rekstrarframlaginu greiðist launa- og skrifstofukostnaður, þátttaka í ýmiskonar sjóðum og önnur starfsemi miðstöðvarinnar.

Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að fallið sé „frá áformum um 470 m.kr. hækkun á framlagi sem veitt var í fjárlögum ársins 2013 til Kvikmyndasjóðs vegna verkefna í svonefndri fjárfestingaáætlun. Áætlanir um tekjur sem fjármagna áttu áætlunina, sérstakt veiðigjald á auðlindaarð sjávarútvegsins, söluhagnaður og eignasala, hafa ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni.“

Ennfremur kemur fram að „lögð [er] til 70 m.kr. hækkun vegna samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012-2015.“

Verði þetta niðurstaðan er um að ræða enn meiri niðurskurð en átti sér stað á árunum 2009-2010 þegar sjóðurinn var skorinn niður um 36%.

Einnig má minna á að samkvæmt samkomulaginu frá 2006 um eflingu kvikmyndagerðar var miðað við að sjóðurinn yrði 700 milljónir árið 2010. Sú upphæð samsvarar um 820 milljónum króna í dag. Miðað við fjárlagafrumvarpið vantar um 200 milljónir króna uppá til að markmiðum upphaflegs samkomulags sé náð – og er þá ekki gert ráð fyrir hækkunum síðan 2010.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR