Svipmynd | Hin hápólitíska Agniezska Holland

Agnieszka Holland2
Agnieszka Holland.

Leikstýran Agniezska Holland (f. 1948) er einn kunnasti kvikmyndagerðarmaður Póllands og á að baki rúmlega 40 ára feril. Hún er heiðursgestur Evrópsku kvikmyndahátíðarinnar sem fram fer í Bíó Paradís 19.-29. september.

Holland stundaði nám við hinn kunna FAMU skóla í Prag og meðal samnema hennar voru Milos Forman og Ivan Passer; tveir af höfuðpaurum tékknesku nýbylgjunnar á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún vann síðan undir handleiðslu Andrzej Wajda um skeið og einnig sem aðstoðarleikstjóri hjá Krzysztof Zanussi, þar til hún hóf að stýra eigin myndum á áttunda áratugnum. Fyrstu myndir hennar vöktu athygli fyrir hápólitísk viðfangsefni og unnu til verðlauna á kvikmyndahátíðum í Chicago, Berlín og Cannes. Hún flutti síðan til Frakklands í kjölfar þess að herlög voru sett í Póllandi 1981.

Mynd hennar Angry Harvest, sem hún gerði í Þýskalandi, var tilnefnd til Óskarsverðlauna 1986 og í framhaldi af því hóf hún að vinna fyrir bandarísku kvikmyndaverin; má þar nefna To Kill a Priest (1988) sem er um ungan prest sem talar gegn kommúnistastjórninni í Póllandi og geldur fyrir með lífi sínu; Europa Europa (1990) sem fjallar um ungan gyðingadreng í Þýskalandi nasismans sem gerist félagi í Hitlersæskunni til að hylja uppruna sinn, myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur hlotið mörg verðlaun; Olivier, Olivier (1992) um unglingspilt sem dúkkar upp í París eftir að hafa verið týndur í sex ár en vafi leikur á um hver hann sé;  The Secret Garden (1993) um unga munaðarlausa stúlku sem uppgötvar leyndardóma í lystigarði á sveitasetri frænda síns og Total Eclipse (1995) með Leonardo Di Caprio og David Thewlis um átakamikil samskipti skáldanna Rimbaud og Verlaine. Þá hefur hún meðal annars leikstýrt þáttum í vinsælum þáttaröðum á borð við The Wire, The Killing og Treme. Á síðasta ári var nýjasta bíómynd hennar In Darkness, tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin.

Nýjasta verk hennar er HBO mini-serían Burning Bush sem byggð er á sönnum atburðum um tékkneska sagnfræðinemann Jan Palach sem kveikti í sér 1969 til að mótmæla innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu og réttarhöldin gegn fjölskyldu Palach þar sem stjórnvöld reyndu að sverta minningu hans.

Myndir Holland sem sýndar verða á Evrópsku kvikmyndahátíðinni eru In Darkness, Europa, Europa og Burning Bush.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR