Greining | Markaðshlutdeild íslenskra mynda hefur þrefaldast á tíu árum – hlutur bandarískra mynda minnkað um 17%

Hér má sjá samanburð á aðsóknarhlutdeild kvikmynda eftir uppruna 2003-2012. Smellið til að stækka.
Hér má sjá samanburð á aðsóknarhlutdeild kvikmynda eftir uppruna 2003-2012. Smellið til að stækka.

Verulegar breytingar eru að eiga sér stað í hegðun íslenskra bíógesta. Markaðshlutdeild íslenskra kvikmynda hefur þrefaldast á tíu árum, hlutur bandarískra mynda dregst verulega saman síðustu ár og hlutur mynda utan Bandaríkjanna eykst mikið. Þetta má sjá í gögnum Hagstofunnar.

[message_box title=“ATHUGIÐ:“ color=“red“]
  • Sundurliðaðar tölur fyrir 2010 skortir af einhverjum ástæðum nema fyrir íslenskar myndir. Heildartala gesta það ár var 1.502.540 manns. Meðaltalstölur áratugsins eru settar í staðinn, þar til nákvæmar upplýsingar liggja fyrir.
  • Inní þessum tölum er ekki aðsókn á kvikmyndahátíðir eða aðrar sérsýningar, t.d. skólasýningar í Bíó Paradís. Þar er að verulegu leyti um aðrar en bandarískar myndir að ræða og er ljóst að aðsókn að þessum sýningum nemur mörgum tugum þúsunda.
  • Tölurnar eru miðaðar við aðsókn en taka ber fram að SMÁÍS reiknar sinn lista út frá tekjum sem breytir myndinni þó ekki mikið.
[/message_box]
Hér má sjá þróun markaðshlutdeildar íslenskra mynda 2003-2012. Smellið til að stækka.
Hér má sjá þróun markaðshlutdeildar íslenskra mynda 2003-2012. Smellið til að stækka.

Þreföld aukning markaðshlutdeildar íslenskra mynda

Íslenskar myndir hafa farið frá 3% markaðshlutdeild 2003 til 9% hlutdeildar 2012. Klapptré lagði fram tölur hér sem sýna hversu aðsókn á íslenskar myndir hefur stóraukist á síðasta áratug og birtir nú tölur yfir breytingar á markaðshlutdeild. Hafa ber í huga að aðsókn á íslenskar myndir getur rokkað mjög upp og niður en frá 2006, þegar mikil aukning varð í aðsókn, hefur hún haldist há og oftast stefnt uppávið. Sjá frumgögn hér.

Hér má sjá þróun aðsóknar bandarískra mynda 2003-2012. Smellið til að stækka.
Hér má sjá þróun aðsóknar bandarískra mynda 2003-2012. Smellið til að stækka.

Mikill samdráttur í aðsókn Hollywoodmynda

Enn meiri athygli vekur að aðsókn á bandarískar myndir hefur verið að dragast mjög saman á síðustu árum og nemur samdrátturinn alls um 17% á síðustu tíu árum, en stóru stökkin niðrávið eiga sér stað á allra síðustu árum. 2003 voru bandarískar myndir með um 84% markaðshlutdeild, 2008 var hún 82%, en 2012 var hún komin niður í 71%. Meðaltalið á tímabilinu er tæplega 80%. Sjá frumgögn hér.

Hér má sjá þróun í aðsókn evrópskra og annarra þjóða mynda 2003-2012. Smellið til að stækka.
Hér má sjá þróun í aðsókn evrópskra og annarra þjóða mynda 2003-2012. Smellið til að stækka.

Gríðarleg aukning í aðsókn á evrópskar og annarra þjóða myndir

Af þessu leiðir að hlutur evrópskra og annarra þjóða mynda hefur aukist gríðarlega, en markaðshlutdeild slíkra mynda hefur farið úr 13% 2003 í 20% 2012. Þetta þýðir aukningu uppá um 54% – og geri aðrir betur. Aftur þarf að hafa í huga að aðsókn getur vissulega sveiflast milli ára og einnig að 2012 var einstakt ár en þá slógu tvær franskar myndir hressilega í gegn, The Artist og Intouchables, en um 65 þúsund gestir sáu þá síðarnefndu. Engu að síður er ljóst af gögnum að aðsókn á þennan flokk mynda hefur vaxið mjög. Sjá frumgögn hér.

Hvað veldur þessum breytingum?

Ýmsa þætti má tína til sem ástæðu þessara breytinga. Í fyrsta lagi hefur heildaraðsókn í kvikmyndahús dregist nokkuð saman á síðustu árum, eða um 12% frá 2009. Hollywood myndir hafa fengið gríðarlega aukna samkeppni frá t.d. netinu, tölvuleikjum og niðurhali. Þá virðist sem áhugi á myndum utan Hollywood meginstraumsins sé að aukast og má þakka það auknu framboði mynda frá Græna ljósinu og Bíó Paradís. Hvað íslensku myndirnar varðar þá hefur bæði myndum fjölgað nokkuð á tímabilinu og tekist hefur að búa til myndir sem höfða til mjög stórs hóps áhorfenda (t.d. Mýrin, Astrópía, Brúðguminn, Jóhannes, Bjarnfreðarson, Sveppamyndirnar, Svartur á leik og Djúpið).

Segja má að kvikmyndalandslagið hér sé að færast í áttina að Norðurlöndum og Evrópu þar sem bandarískar myndir hafa ekki eins sterka stöðu og þær hafa haft hér. Fjölbreytni í myndaframboði er að aukast og neytendur virðast bregðast vel við, þó nokkurn tíma þurfi enn til að festa fjölbreytnina í sessi.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR